Mynd sem sýnir Reykhólahrepp.
Reykhólahreppur samanstendur af annars vegar íbúum í sveitinni sem margir stunda búskap annað hvort eingöngu eða meðfram annarri vinnu, mest er um sauðfjárrækt en einnig eru nokkur kúabú og hins vegar íbúum þorpsins sem sækja vinnu í þorpinu en líka utan þess. Á Stað á Reykjanesi er hægt að kaupa beint frá býli; reyktan rauðmaga, bjúgu, heimagert rúgbrauð og hangikjöt til að nefna nokkuð. Bjarkalundur er elsta sumarhótel landsins, var byggt 1945-1947 og er í seinni tíð þekkt sem bakland þáttanna Dagvaktin og stendur þekkt bifreið úr þáttunum, Læðan fyrir utan Bjarkalund.
Í Króksfjarðarnesi er lögð stund á bláskelsræktun og á Karlsey sem liggur utar Reykhólaþorpsins er lítil höfn og þar eru Þörungaverksmiðjan sem framleiðir mjöl úr klóþara og hrossaþangi úr Breiðafirði og nýtir heita vatnið á svæðinu til þurrkunar og saltverksmiðjan Norðursalt sem vinnur salt úr Breiðafirði og nýtir affallsheitavatnið frá Þörungaverksmiðjunni við þurrkun á saltinu.
Á Reykhólum er m.a. leik- og grunnskóli, elliheimili, kirkja, verslun, gróðurhús, gistiheimili, sundlaug, tjaldstæði, lítil báta- og hlunnindasýning með kaffihúsi, Sjávarsmiðjan þar sem hægt er að fara í þaraböð og fá veitingar.
Björgunarsveitin Heimamenn stendur vaktina bæði fyrir heimafólk sem og ferðamenn og kvenfélagið Katla sem er mjög öflugt og stendur fyrir alls kyns viðburðum og styrkjum til fjölmargra í sveitarfélaginu.
Nafnið Katla er dregið af þjóðsögunni Kötludraumur. Nokkrar útgáfur eru til af sögunni og mislangar og einnig er hún til í kvæðabálki en í mjög stuttu máli er þjóðsagan um Kötlu sem var gift Má og bjuggu þau á Reykhólum. Eitt sinn sofnaði Katla og var ekki hægt að vekja hana í nokkra daga en þegar hún loks vaknaði var hún ekki með sjálfri sér og sagði síðan manni sínum að huldukonan Alvör hefði sótt hana, farið með hana í bát yfir að Þverá og þar var hún gift syni Alvarar, huldumanninum Kára. Hann unni Kötlu en hún vildi snúa tilbaka til Más. Eftir nokkrar nætur í rekkju Kára segir hann henni að hún muni fæða dreng og vill að hún nefni hann Kára. Sagði Kári henni líka að flytja bústaðinn og búa við stóra þúfu sem yrði féþúfa þeirra Kötlu og Más. Síðan fer Katla tilbaka til Más og Kári springur af harmi. Katla eignaðist einkar frítt sveinbarn sem Már feðraði og var góður við en Katla fremur fálat við. Sagt er að Alvör hafi oft angrað Kötlu þar sem hún kenndi henni um hvernig fór fyrir Kára syni sínum en Katla tók á það ráð að snúa bæjardyrunum á Reykhólum þannig að þær snéru upp til fjallsins svo að hús Alvarar myndi ekki blasa við henni. Katla vildi ekki fara í Reykhólalaugina sem sneri í suður því þá fannst henni hún of nálægt híbýlum Alvarar og fór frekar alllangt frá bænum og baðaði sig í einstakri laug sem heitir enn Kötlulaug.
Reykhólahreppur er stórt og víðfeðmt sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum. Upprunalega náði hreppurinn frá Kambsfjalli og vestur að Múlá í Þorskafirði en hinn 4. júlí 1987 voru allir hreppir Austur-Barðastrandarsýslu; Flateyjarhreppur, Geiradalshreppur, Gufudalshreppur og Múlahreppur sameinaðir undir nafni Reykhólahrepps. Í dag nær hreppurinn frá Gilsfirði í austri til Kjálkafjarðar í vestri og nær yfir 1.090 km2. Firðirnir í Reykhólahreppi eru þrettán talsins og heita frá vestri til austurs; Kjálkafjörður, Mjóifjörður, Kerlingarfjörður, Vattarfjörður, Skálmarfjörður, Kvígindisfjörður, Kollafjörður, Gufufjörður, Djúpifjörður, Þorskafjörður, Berufjörður, Króksfjörður og Gilsfjörður og opnast þeir allir út í norðanverðan Breiðafjörðinn. Reykhólaþorpið liggur á mótum Berufjarðar og Breiðafjarðar.
Helstu eyjarnar í Breiðafirði voru margar í byggð fyrrum en eru nú flestar í eyði. Þær helstu sem tilheyra Reykhólahreppi eru Flatey, Svefneyjar, Skáleyjar, Sviðnur og Látralönd, Akureyjar, Bjarneyjar, Hergilsey, Ólafseyjar, Stagley og Oddbjarnarsker.
Samkvæmt Hagstofunni bjuggu 270 manns í Reykhólahreppi fyrsta ársfjórðung 2016 og þar af 135 manns í þorpinu (Hagstofan, 2016). Samgöngur og vegagerð innan hreppsins eru misgóðar, ferja gengur á milli Flateyjar og Brjánslækjar og ekki eru allir landsmenn sem myndu láta bjóða sér að keyra yfir Hjallaháls, Ódrjúgsháls og Klettháls í nær öllum veðrum eins og ábúendur vestan megin við hálsana mega gera til að geta stundað vinnu á t.d. Reykhólum. Mikið hefur verið deilt um hvar nýr vegur á að liggja og fer þar hæst deilan um Teigsskóg í Þorskafirði sem er enn ekki til lykta leidd er þetta er skrifað.
Hreppurinn býður upp á margs konar landslag og er landslagið gífurlega fallegt hvert sem litið er. Það er ekki að undra að nokkrir af helstu listaskáldum landsins hafi fyllst sköpunargleði og verið blásið skáldagyðju í brjóst þegar þeir bjuggu eða dvöldu í Reykhólahreppi. Þegar keyrt er afleggjarann inn að Reykhólum í ljósaskiptum og tunglið speglast í hinum kynngimagnaða og fallega Berufirði þá er auðvelt að sjá fyrir sér vettvang huldusagna og hvernig hinir fallegustu ljóðabálkar urðu til.
Hér er hringhend lausavísa eftir Jón Thoroddsen sem gefur til kynna væntumþykju skáldsins til hlíðarinnar sinnar:
Brekkufríð er Barmahlíð,
blómum víða spróttin.
Frægir lýði, fyrr og síð:
Fallega smíðar Drottinn