Guðbjörg Guðmundsdóttir er fædd 17. ágúst 1945 í Kvígindisfirði. Hún er dóttir hjónanna Guðmundar Guðmundssonar frá Svínanesi í Kvígindisfirði og Ólafar Jóhannesdóttur frá Kvígindisfirði. Guðbjörg er næst yngst tíu systkina. Það var alltaf nóg að gera, ýmis verk sem þurfti að vinna. Þau fengu þær vistir sem þau sköffuðu ekki sjálf með flóabátnum Konráð sem kom frá Flatey. Hún var 10 ára gömul þegar hún fór í skóla út á Kirkjuból sem liggur utar í Kvígindisfirði. Kennarinn bjó þar og þeir nemendur sem höfðu aldur til voru þar og gistu þann tíma sem þau voru í skólanum. Aðallega var kenndur lestur, skrift, reikningur og svo Íslandssaga og biblíusögur.
Hún flutti til Reykjavíkur 17 ára og hún hafði aðeins einu sinni áður komið til Reykjavíkur þegar hún fór 15 ára í skemmtiferð með skyldmennum úr Kvígindisfirði. Þetta var á 17. júní og henni fannst þetta mjög tilkomumikið og mikið mannhaf. Söngvarinn Raggi Bjarna var niðri í Aðalstræti að skemmta og þetta var mikið upplifelsi eins og hún orðar það enda hafði hún eingöngu farið á bæina í kring áður en að hún fór í þessa ferð.
Guðbjörg er gift Sigurði Haraldssyni og eiga þau þrjú börn. Guðbjörg segir að þau hjónin sæki í kyrrðina og rónna sem er í Kvígindisfirði, þess vegna líkar þeim svo vel og koma eins oft og þau geta. Friðsældin í Kvígindisfirði sé engu lík.
Sigurður Haraldsson eða Siggi eins og hann er alltaf kallaður er fæddur 22. desember 1941 að Aðalstræti 16 í Reykjavík. Hann er sonur hjónanna Haraldar Jónssonar og Herbjargar Andrésdóttur frá Þórisstöðum í Þorskafirði. Siggi er áttundi í röðinni af tólf systkinum. Hann er alinn upp í miðbæ Reykjavíkur en var sendur í sveit 9 ára gamall í Múla í Þorskafirði hjá Jónasi Andréssyni, móðurbróður sínum. Hann var síðan yfir veturinn líka þegar hann var 11 ára og fór þá í Reykhólaskóla með frænda sínum Inga Bergþóri sem bjó í Múla. Hann langaði að fá að prófa að vera í skóla úti á landi og líka að sjá allan snjóinn þarna á veturnar.
lightbox[640 360]Guðbjörg og æskan lightbox[640 360]Fyrsta ferðin til Reykjavíkur lightbox[640 360]Guðbjörg og jól æskunnar lightbox[640 360]Siggi segir frá seláti lightbox[640 360]Guðbjörg og Siggi segja frá kynnum sínum