Jóhannes Geir Gíslason eða Jói í Skáleyjum eins og hann er alltaf kallaður fæddist 9. september 1938 í Skáleyjum í Breiðafirði. Hann á tvær dætur, þær Helgu Maríu og Hildigunni. Jóhannes er í sambúð með Kristbjörgu Ingu Magnúsdóttur sem hann segir að sé konan sín með stóru Kái. Þau hættu fastri búsetu í Skáleyjum 2002 en voru þar ráðandi til ársins 2013 (frá apríl fram til desember) en með annan fótinn á Reykhólum síðan 2008. Þá felldu þau féð og við tók ný kynslóð. Jóhannes dvelur núorðið í Skáleyjum einungis yfir sumartímann. Í Skáleyjum er verið að gera byggðasafn í gömlu fjárhúsunum, mörgum gömlum hlutum frá íbúum Skáleyja hefur verið haldið til haga og vinnur Jóhannes að skráningu allra munanna. Þarna er að finna hluta úr eldhúsinnréttingu móður hans, stól sem amma hans sat alltaf í eftir að hún varð veik, borðbúnað, rúm, áhöld fyrir íbúa sem og húsdýr eins og t.d. helgrímu og hamar. Jóhannes segir að það jafnist ekkert á við Skáleyjar, þær séu einstakar og þar eigi hann alltaf heima hvar sem hann nú býr.
Ég fékk að fara ásamt syni mínum, Jakobi Borgari Pálssyni, með Jóhannesi út í Skáleyjar einn fagran og hlýjan eftirmiðdag í lok apríl og þótt ég hafi verið full tilhlökkunar fyrir ferðina þá jafnaðist sú tilfinning ekkert á við tilfinninguna að ferð lokinni. Ég var full lotningar, fann sterklega fyrir að ég hefði fengið að upplifa eitthvað sem væri ekki fyrir alla, mér var hleypt inn í paradísina og það með sögumanni af bestu gerð. Ég er sammála Jóhannesi um að Skáleyjar séu óviðjafnanlegar. Ekki spillti fyrir spegilsléttur Breiðafjörðurinn þegar við sigldum út eða þurrkaði þorskhausinn sem okkur ferðalöngunum var boðið upp á í nýrra íbúðarhúsinu í Skáleyjum.
Hér má sjá Jóa sýna okkur Skáleyjar og væntanlegt byggðasafn