Védís Fríða Kristjánsdóttir og Aníta Hanna Kristjánsdóttir eru heimasæturnar á Stað sem liggur á Reykjanesi. Védís er fædd 8. maí 2002 og Aníta 20. febrúar 2005. Þær búa ásamt foreldrum sínum Rebekku Eiríksdóttur og Kristjáni Ebenesarsyni á Stað ásamt móðurforeldrum þeirra, þeim Sigfríði (Fríða) Magnúsdóttur og Eiríki Snæbjörnssyni. Systurnar ganga í Reykhólaskóla. Þeim systrum finnst báðum mjög gott að búa í sveit og í Reykhólahreppi.
Það skemmtilegasta við sveitina eru dýrin en það leiðinlegasta er að vera langt frá vinum sínum, að geta ekki rölt yfir til þeirra þegar þær langar og svo eru þær sammála um að það er líka mjög leiðinlegt að raka. Þegar ég spyr þær hvort þær sakni einskis í fámenninu, eins og að fara í bíó t.d. þá játa þær því, segja að það væri gaman að geta skroppið í bíó hvenær sem er en það skipti samt ekki öllu, kostirnir séu meiri við að búa í sveitinni.